Fyrirhugaður samruni Allergan, móðurfélags Actavis á Íslandi, og Pfizer mun ekki hafa áhrif á kaup Teva á samheitahluta Allergan sem tilkynnt var um í júlí á þessu ári. Samheitalyfjahluti fyrirtækisins starfar að mestu undir nafni Actavis víða um heim, þar á meðal á Íslandi, en hér á landi er fyrst og fremst starfsemi á sviði samheitalyfja.

Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð kaup Teva muni ganga í gegn á fyrsta ársfjórðungi 2016 og að samruni Pfizer og Allergan muni ganga í gegn um mitt ár 2016. Að mati Financial Times er þetta stærsti samningur sögunnar í heilbrigðisgeiranum.

Samkvæmt samningnum fá hluthafar Allergan 30% hærra verð fyrir hlutabréfin heldur en verðið var þegar fyrst var tilkynnt um kaupin. Nánar var fjallað um samruna fyrirtækjanna í frétt Viðskiptablaðsins nú í morgun .