"Í dag erum við nánast búin að vinna upp það framleiðslutap sem hrunið olli. Við værum hins vegar á allt öðrum stað ef ferðaþjónustan hefði ekki komið til. Efnahagsbatinn væri að öllum líkindum ekki hafinn ef ekki hefði komið til hennar," sagði Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður Efnahagsdeildar Samtaka atvinnulífsins við kynningu á nýrri hagspá deildarinnar á Grand Hótel í morgun.

Þar kom m.a. fram að deildin spáir þriggja prósenta hagvexti á næstu árum en að samsetning hagvaxtar mun breytast á ný. "Einkaneyslan mun leggja verulega til og einnig aukin fjárfesting. Ferðaþjónustan mun áfram gegna lykilhlutverki en framlag innlendrar eftirspurnar mun aukast," sagði Ásdís.

Víkka þarf út útboð Seðlabankans

Ennfremur telur efnahagsdeildin að staða efnahagslífins sé mjög brothætt innan hafta. Ásdís benti á að hægt væri að flokka snjóhengjuna svokallaða í þrennt: Krónueignir í höndum erlendra aðila, þrotabúin og eignir innlendra aðila í gegnum lífeyrissjóði og innlenda fjárfesta. Hún telur að mikilvægt sé að víkka þarf út gjaldeyrisútboð Seðlabankans og að hleypa þurfi innlendum aðilum í útboðin. "Ástæðan er sú að það blasir mikil óvissa við um stærð þessarar snjóhengju. Með því að hleypa fleiri aðilum inn gætum fengið mælikvarða á stærðina," sagði Ásdís.

Hún bætti því við að ástand efnahagslífsins innan hafta væri mjög brothætt og mikilvægt væri því að fara sem fyrst í afnám hafta. Hún bætti því við að "því fylgir áhætta að taka engin skref við losun hafta".