Þrotabú Samson, félags Björgólfsfeðga sem var stærsti eigandi Landsbankans, fékk á dögunum rúmlega átta milljarða frá Standard banka í Suður-Afríku vegna framvirks gjaldmiðlaskiptasamnings sem gerður var 15. maí í fyrra. Samningurinn byggði á því að veðja á veikingu krónunnar, samkvæmt upplýsingum frá Helga Birgissyni hrl., skiptastjóra Samson.

Féð sem Samson fékk vegna fyrrnefnds samnings fór upp í skuld Samson við Standard sem er upp á um 27,7 milljarða. Hún er tilkomin vegna láns sem Samson fékk hjá bankanum.

Á þeim tíma sem samningurinn var gerður voru erlend lán Samson, m.a. hjá Standard banka, að hækka mikið í krónum talið vegna veikingar krónunnar auk þess sem óvissan jókst stöðugt um hvort Landsbankinn myndi lifa af. Annar gjaldmiðlaskiptasamningur félagsins við Glitni banka er hins vegar neikvæður um 3,5 milljarða, samkvæmt upplýsingum frá Helga.