*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 4. mars 2020 19:40

Samstarf í þágu barna

Samstarfssamningur Mussila og Buddyphones felur í sér dreifingu á tónlistarforritinu Mussila með heyrnartólum Buddyphones.

Sveinn Ólafur Melsted
Jón Gunnar Þórðarson og Pétur Hannes Ólafsson skrifa undir samstarfssamninginn.
Aðsend mynd

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Mussila og Buddyphones skrifuðu í vikunni undir samstarfssamning sem felur í sér samstarf á dreifingu á tónlistar-forritinu Mussila með barnvænu heyrnartólunum Buddyphones. Samstarfið felur það í sér að með hverjum pakka af keyptum heyrnartólum frá Buddyphones fylgir mánaðaráskrift af Mussila tónlistarforritinu.

Bæði fyrirtækin hafa öryggi barna að leiðarljósi. Mussila vill stuðla að skynsamlegum en uppbyggilegum skjátíma, með fræðandi leik og tónlistarkennslu og Buddyphones heyrnartólin verja börn gegn heyrnarskaða. Mussila hefur náð langt á alþjóðamarkaði og á stuttum tíma hafa Buddy-phones heyrnartólin orðið gríðarlega vinsæl og eru þau í boði í 60 löndum í dag. Heyrnartólin hafa selst hátt í 2 milljónum eintaka um víða veröld en á Íslandi fást heyrnartólin meðal annars í Elko, Símanum og Epli.

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila, kveðst mjög ánægður með samstarfið, enda séu Buddyphones heyrnartólin hágæðavara sem verndi heyrn barna.

„Dreifileiðir Mussila og Buddyphones eru ólíkar en vinna vel saman. Við mælum með því að börn noti heyrnartól þegar þau spila leikinn okkar en sérstaklega hágæða heyrnartól sem verja börn gegn heyrnarskaða. Með samstarfi Buddyphones og Mussila eru mismunandi dreifileiðir nýttar, bæði í gegnum stafræna heiminn og hefðbundnar dreifileiðir með vöruframboði í hillum stórmarkaða víða um heim. Við teljum að þetta samstarf styrki bæði fyrirtækin til enn frekari útbreiðslu."

„Tölfræði frá Bandaríkjunum sýnir að nærri 13% 16 ára og yngri barna í dag eru með heyrnarskaða að einhverju leyti sem hægt er að rekja til notkunar á heyrnartólum sem leyfa of háan styrk. Allur heyrnarskaði er varanlegur," segir Pétur Hannes Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins Onanoff sem framleiðir Buddyphones heyrnartólin.

Ná fram mikilli samlegð

Jón Gunnar og Pétur Hannes segja að á því augnabliki sem leiðir fyrirtækjanna hafi legið saman, hafi fljótlega komið í ljós að samstarf þeirra á milli gæti skilað sér í töluverðum samlegðaráhrifum, báðum aðilum til bóta.

„Fyrirtækin eiga svo margt sameiginlegt, enda er velferð barna í forgrunni hjá þeim báðum. Það er alltaf gaman þegar íslensk fyrirtæki geta hjálpað hvert öðru. Með þessu erum við að færa okkar viðskiptavinum meira virði og á sama tíma getur Mussila komið sinni frábæru vöru á framfæri til fleira fólks. Ég tel að fleiri íslensk fyrirtæki mættu líta meira til þess að ná fram samlegð með samstarfi sín á milli," segir Pétur Hannes.

„Við sjáum mikla möguleika með þessu samstarfi og reiknum með að samstarfið muni halda áfram að þróast í framtíðinni," bætir Jón Gunnar við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Áhrif veirusýkingar á hagkerfið eru skoðuð og hvernig þjóðarbúið eigi að nýta sterka stöðu sína til að bregðast við.
 • Þróun hlutabréfaverðs Bakkavarar er skoðað eftir að aðstæður í helstu verksmiðjum félagsins breyttust.
 • Sagt er frá langvinnri baráttu við fjármálaráðuneytið um afrit af gögnum um Lindarhvol
 • Rætt er um áhrif veirusýkinga, hagræðingu og aukna sókn Eimskipafélagsins, m.a. meiri opnun Grænlands.
 • Mál Glitnis gegn Útgerðarfélagi Reykjavíkur og Orkuveitu Reykjavíkur borin saman.
 • Úttekt á afkomu félaganna á aðallista kauphallarinnar á síðasta ári.
 • Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju er í ítarlegu viðtali.
 • Grænum svipmyndum er brugðið upp, annars vegar af Loftslagsmóti Grænvangs um nýsköpun og lausnir í rekstri sem og morgunverðarfundi ASÍ um umhverfismál og græna skatta.
 • Samfélagsleg ábyrgð var í brennidepli á UAK deginum, stærsta viðburð ársins hjá Ungum athafnakonum.
 • Hreinn Gústavsson, nýr tæknistjóri hjá Dropp er tekin tali um ferilinn og blakáhugann.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um samningagetu- og vilja Eflingar
 • Óðinn skrifar um stórsigur einkareksturs í heilsugæslunni