Geimferðastofnanir Rússa og Evrópumanna hafa eftir áralangar samningaviðræður gefist upp á hugmyndum um sameiginlega staðla í byggingu endurnýtanlegra mannaðra geimflauga.

Frá þessu var greint á vefsíðunni RussianSpaceWeb.com í gær.

Samningaviðræður hafa staðið yfir í fjölda ára á milli stjórnarnefndar Human Spaceflight hjá ESA geimferðastofnun Evrópu (European Space Agency, ESA) og Roskosmos geimferðastofnun Rússlands.

Hugmyndin var að samræma hönnun endurnýtanlegra loftfara fyrir mannaðar geimferðir þannig að hægt væri að skjóta þeim á loft hvort heldur væri með evrópskum eða rússneskum eldflaugum. Ekki náðist um þetta samkomulag.

Í yfirlýsingu sem gefin var út þann 28. október sl. eru nefndar bæði pólitískar og tæknilegar ástæður fyrir því að hugmyndir um samvinnu gengu ekki upp.

Geimferðastofnun Evrópu vonaðist til að hægt yrði að samræma hönnun á smíði geimfara fyrir Ariane-5 eldflaugar við væntanlegar nýjar eldflaugar Rússa. Telur ESA nú útilokað að af slíku samstarfi geti orðið.

Rússar höfðu upphaflega vonast eftir samstarfi við bandarísku geimferðastofnunina NASA. Roskosmos og RKK Energia sneru sér hins vegar til ESA þegar þær samstarfshugmyndir gengu ekki upp.

Þá var  á teikniborðinu geimferja sem Rússar nefndu Kliper og reyndu þeir að fá erlenda fjárfesta að því verkefni. RKK Energia var þá þegar í samstarfi við hönnun á ýmsum búnaði í ómannaða Jules Verne flutningaferju ESA. Var ætlunin að nota evrópsku ferjuna til að flytja búnað og vistir í alþjóðlegu geimstöðina.

Hönnun Jules Verne hafði hins vegar ýmsa veigamikla galla sem Rússar hugðust bæta úr með Kliper sem auk þess átti að vera mönnuð.