Skúli Gunnar Sigfússon, oft kallaður Skúli í Subway, var ekki nema 27 ára þegar hann opnaði fyrsta Subwaystaðinn þann 11. september árið 1994 í Faxafeni. Skúli hafði þremur árum áður útskrifast úr háskóla í Phoenix í Arizona ríki Bandaríkjanna þar sem hann lærði fjármálafræði. Staðirnir eru nú orðnir 24 talsins.

Í dag er Skúli í viðamiklum fjárfestingum, ekki bara í veitingageiranum heldur líka í fasteignum, ferðaþjónustu og á næstu mánuðum mun hann ráðast í mörg þúsund tonna laxeldi í félagi við aðra. Allt byrjaði þetta hins vegar með opnun fyrsta Subway-staðarins.

Samstarf við Simma og Jóa verið farsælt

Skúli á fjórðungshlut í Nautafélaginu hf., sem á og rekur Hamborgarafabrikkuna. Aðrir eigendur eru Snorri Marteinsson og Simmi og Jói, en þeir tveir síðastnefndu eiga samanráðandi hlut.

Rekstur Fabrikkunnar hefur gengið vel, ekki satt?

„Jú, hann hefur gengið mjög vel,“ segir Skúli

Hverju má þakka þá velgengni?

„Það má þakka þá velgengni góðum rekstri, góðri vöru og góðri þjónustu að mínu mati. Þetta hefur fallið vel í kramið hjá fólki, varan, þjónustan og verðið,“ svarar hann til.

Hversu miklu máli skiptir kassalaga kjötið?

„Ég held nú að það skipti ekkert meginmáli, en það skiptir einhverju máli því það fellur betur að brauðinu þegar það er kassalaga,“ segir Skúli og hlær. Aðspurður segir hann ekki vera áform um að opna fleiri veitingastaði undir merkjum Hamborgarafabrikkunnar. „Við opnuðum fyrir rúmu ári á Akureyri og svo í Kringlunni. Það eru ekki endilega stækkunaráform með Fabrikkuna á næstunni. Hún gengur vel og við munum stíga varlega til jarðar þar. Hins vegar er alveg mögulegt að við munum stækka félagið og takast á við önnur verkefni,“ segir hann.

Hvers konar verkefni?

„Það eru verkefni í veitingarekstri,“ segir Skúli.

Ertu þá að tala um einhver önnur vörumerki?

„Já, þess vegna. Annaðhvort eitthvað sem við byrjum með sjálfir eða fjárfestum í eða eitthvað í þeim dúr.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .