Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Tæknivörur ehf./Samsung hafi stundað óréttmæta viðskiptahætti og brotið gegn sjö mismunandi ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Málið snýst um auglýsingu frá fyrirtækinu sem talin var ólögleg samanburðarauglýsing og villandi fyrir neytendur.

„Niðurstaðan byggist í hnotskurn á því að með auglýsingunni sé verið að villa um fyrir neytendum. Það er auðvitað eitt og sér mjög alvarlegt mál.“ Þetta segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður og framkvæmdastjóri á Málflutningsstofu Reykjavíkur. Hann vísar í niðurstöðu Neytendastofu og segir að í auglýsingunni sé vísað með ólögmætum og neikvæðum hætti til Apple en slíkt er bannað með lögum.