Varastjórnarformaður Samsung Electronics, Jay Y. Lee neitaði ásökunum við þingsetningu ákæru þar sem saksóknarar fóru fram á 12 ára fangelsisvist fyrir mútur, þar með talið á hendur fyrrum forseta landsins.

Lee er álitinn raunverulegur stjórnandi þessarar eina stærstu fyrirtækjasamsteypu Asíu, en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í febrúar, vegna hneykslismálsins sem leiddi meðal annars til þess að fyrrum forseti landsins, Park Geun-hye þurfti að láta af embætti.

Ef hann verður sakfelldur verður þetta lengsti fangelsisdómur sögunnar fyrir nokkurn í suður kóreska fjármálaheiminum, en dómurinn verður felldur 25. ágúst næstkomandi.

Aðrir glæpir sem hann er sakaður um er að flytja í óleyfi fjármagn erlendis og fela afrakstur glæps. Ásökunin felur í sér að fyrirtækið hafi ætlað að greiða fyrir tvo sjóði undir stjórn fyrrum forsetans ásamt stuðningi við hestamennskuferil dóttur eins sem að málinu kemur, sem snýst um að fá stuðning frá forsetanum við að tryggja völd varastjórnarformannsins yfir Samsung risanum.

,,Ég hef aldrei beðið neinn, þar með talið fyrrum forsetann, um nokkuð fyrir fyrirtækið eða eigin hag," segir Lee í yfirlýsingu sem hann las upp með ekkasogum að því er fram kemur í frétt Reuters . ,,Ég sé eftir því með miklum trega að ég hafi valdið þessum vonbrigðum og biðst afsökunar."

Hlutabréf í fyrirtækinu hafa lækkað um 0,25% eftir opnun markaða í dag, þegar þetta er skrifað, sem dró til baka hækkun í kjölfar þess að seint í júlí skilaði félagið methagnaði á síðasta ársfjórðungi.