*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 9. september 2020 09:51

Samtals 99 milljarðar í yfirtökur

Nýjasta fjárfesting Marel fyrir 140 milljónir evra færir heildarfjárhæð yfirtaka hjá félaginu í 600 milljónir evra síðan 2015.

Ritstjórn
Árni Sigurðsson er framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga hjá Marel.
Haraldur Guðjónsson

Frá árinu 2015 hefur Marel fjárfest í sjö fyrirtækjum fyrir um 600 milljónir evra, eða sem samsvarar 99 milljörðum íslenskra króna, að því er Fréttablaðið hefur eftir Árna Sigurðssyni framkvæmdastjóra stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga hjá Marel.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi hefur Marel nú keypt þýska félagið TREIF fyrir 140 milljónir evra, það er 23 milljarða íslenskra króna, sem er næst stærsta yfirtakan á þessum fimm árum. Sú stærsta voru kaupin á MPS fyrir 382 milljónir evra, eða 63 milljarða króna árið 2015 en hin í millitíðinni voru mun umfangsminni.

Kaupin nú voru þau fyrstu sem gerð voru eftir að Marel tók upp tvíhliða skráningu hlutabréfa sinna bæði hér heima á Íslandi og í Hollandi síðasta sumar.

„Skráning hlutabréfa okkar í alþjóðlega kauphöll í evrum styður við vaxtastefnu Marel, þar sem seljendur fyrirtækja verða fyrir vikið áhugasamari um að fá hluta af greiðslunni með bréfum í Marel,“ segir Árni sem spurður var hvort borgað væri hátt verð fyrir TREIF fyrst það var ellefu faldur EBITDA hagnaður félagsins.

„Segja má að síðustu tvö ár hafi okkur þótt hlutabréfamarkaðir hafa farið fram úr sér og því var orðið erfitt að finna góð kauptækifæri. Núna erum við hins vegar að sjá betra jafnvægi og við erum afar sátt við verðið sem við erum að borga fyrir TREIF […]

Eigendum fjölskyldufyrirtækja, eins og TREIF, er oft umhugað um að finna þeim gott heimili og vilja tryggja að hugsað verði vel um starfsfólkið. Kaupverðið þarf því ekki að ráða úrslitum þegar ákveðið er hverjum skal selja. Fyrirtækin starfa oft í litlum samfélögum og því er seljendum mikið í mun að ekki verði ráðist í umfangsmiklar uppsagnir eða starfseminni verði hætt í náinni framtíð […]

Í viðræðunum þróaðist samtalið á þá vegu að Uwe Reifenhäuser, forstjóra og eiganda TREIF, var boðið að fá hluta af kaupverðinu greitt með hlutabréfum í Marel sem hann þáði, fyrir rétt um tíu prósentum, þar sem hann er spenntur fyrir sameiginlegri framtíð Marels og TREIF. Reifenhäuser hefur stýrt TREIF, sem faðir hans stofnaði, í þrjá áratugi. Hann tók við rekstrinum einungis 29 ára gamall þegar faðir hans féll skyndilega frá.“

Stikkorð: Marel Árni Sigurðsson