Hluthafar Icelandair samþykktu á nýloknum hluthafafundi að falla frá forkaupsrétti sínum að nýjum hlutum til að bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital geti fjárfest 8,09 milljörðum króna, í formi nýs hlutafjár, í flugfélaginu fyrir 16,6% hlut. Bain Capital er þar með orðinn stærsti hluthafi Icelandair. Samhliða því mun Bain Capital fá áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara 25% af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út. Nánar má lesa um þetta í tilkynningu Icelandair.

Alls voru 91,95% greiddra atkvæða sem samþykktu tillögu stjórnarinnar, 7,98% atkvæða voru greidd gegn henni og 0,08% sátu hjá.

Matthew Evans, framkvæmdastjóri hjá Bain Capital, var kosinn í stjórn Icelandair en hann kemur inn fyrir Úlfar Steindórsson sem hefur verið stjórnarformaður Icelandair frá árinu 2017 og setið í stjórninni í áratug.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði á uppgjörsfundi í morgun að félagið íhugi alvarlega að bæta við tveimur nýjum MAX vélum til viðbótar við núverandi áætlanir félagsins. Bogi ítrekaði þetta á hluthafafundinum sem hófst klukkan fjögur í dag og sagði að MAX vélarnar geti spilað enn stærri hlut í flota félagsins en áður var lagt upp með.