*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 30. nóvember 2011 17:34

Samtök atvinnulífsins gagnrýna auðlegðarskatt

Lýsa vonbrigðum með framlengingu til 2015. Telja skattinn óréttlátan en fæst lönd innheimta eignarskatta.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Samtök atvinnulífsins lýsa miklum vonbrigðum með áform ríkisstjórnarinnar um að framlengja gildistíma auðlegðarskatts til ársins 2015. SA segja auðlegðarskatturinn, sem tekinn var upp fyrir tveimur árum, sé almennt talinn óréttlátur en fæst nálæg lönd leggja eignarskatta á þegna sína.

Í fréttatilkynningu frá SA segir að enn á ný sé hert á skattlagningunni og lagt til viðbótarskattþrep, þ.e. 2% skatt á hreina eign yfir 150 milljónum króna hjá einstaklingi og 200 milljónum króna hjá hjónum. Ákvæði um þennan skatt hafa tekið tíðum breytingum, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu, sem raunar er ekki tæmandi. Álagning fjármagnstekjuskatts á ávöxtun af fjármagni sem er minni en verðbólgan er í raun eignaupptaka. Í 5% verðbólgu eins og á þessu ári háttar þannig til um allar fjármagnstekjur sem eru minna en 5% af stofni. Auðlegðarskatturinn er í eðli sínu mjög hátt viðbótarskattþrep í fjármagnstekjuskatti.

Ef ávöxtunin er 5% þá sér verðbólgan um að raunávöxtunin verði engin. En fjármagnstekjuskatturinn rýrir eignina um 1% og auðlegðarskatturinn um 2% þannig að eignin rýrnar samtals um 3% í þessu tilviki. Auðlegðarskatturinn er þannig ígildi 40% fjármagnstekjuskatts á ávöxtun eignar umfram mörkin til viðbótar 20% fjármagnstekjuskattinum, samtals 60%. Í þessu tilviki þarf ávöxtun að nema 8,75% til þess að nokkur raunávöxtun fáist og sé litið til markanna milli 75 og 150 m.kr. þarf ávöxtunin að nema a.m.k. 8,1%. Það er því augljóst að þessir skattar ýta upp ávöxtunarkröfu fjárfestinga og slá alla fjárfestingarkosti út af borðinu sem eru ekki vel yfir þessum mörkum.