Samtök iðnaðarins (SI) hafa í gegnum tíðina verið fjármögnum að stórum hluta til með hinu svokallað iðnaðarmálagjaldi sem innheimt hefur verið í gegnum ríkissjóð.

Um töluverðar upphæðir hefur verið um að ræða en á fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 300 milljóna króna framlagi.

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi gjaldið þó ólöglegt fyrr á þessu ári og í síðustu viku samþykkti Alþingi ný lög um gjaldið. Samkvæmt þeim mun gjaldið vera síðast lagt á vegna rekstrarársins 2009 og verður tekjunum varið til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

Það er því nýr veruleik sem blasir við SI þar sem þau þurfa nú að fjármagna sig með öðrum hætti en áður.

„Gjaldið er blessunarlega að leggjast af á næsta ári, þetta hefur valdið mismunum gagnvart ákveðnum tegundum fyrirtækja,“ segir Orri Hauksson, nýráðinn framkvæmdastjóri SI, aðspurður um iðnaðarmálagjaldið.

„Samtökin þurfa nú að fjármagna sig með hefðbundnum hætti og undir ströngu aðhaldi sinna félagsmanna með því að innheimta félagsgjöld sem félagsmenn greiða af fúsum og frjálsum vilja. Óháð þeim mannskap sem skipar SI á hverjum tíma þá er strax að verða eðlisbreyting á því hvernig þessi samtök eru rekin.“

Aðspurður hvort hann telji að félagsmönnum í SI muni fækka í kjölfarið segir Orri að nú sé það samtakanna að sanna tilvistargrundvöll sinn fyrir félagsmönnum. Stóra verkefnið nú verði að standa á nýjum grunni á eigin forsendum. Þá þurfi að gera félagsmönnum betur grein fyrir því hvað fáist með aðild að samtökunum og segist Orri hlakka til þess mikilvæga verkefnis.

Nánar er rætt við Orra, sem tók við starfi framkvæmdastjóra um sl. mánaðarmót, í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Kaflinn hér að ofan þar sem fjallað er um iðnaðarmálagjaldið rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er hér birtur í heild sinni.

Í viðtalinu fjallar Orri um fyrirhugað átak SI, stöðu atvinnulífsins almennt, samskiptin við stjórnvöld, hvort vænta megi stefnubreytingu SI í Evrópumálum og samstarf sitt við Davíð Oddsson og Björgólf Thor.

_____________________________

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .