Hluthafafundur Fiskeldis Eyjafjarðar hf., sem haldinn var fyrr í dag, samþykkti tillögu þess efnis að stjórn félagsins verði heimilað að færa niður hlutafé félagsins um 80%. Fjárhagur félagsins hefur versnað á undanförnum árum vegna mikils tapreksturs. Eftir uppgjör fyrstu 3 mánuðu þessa árs er eigið fé komið niður fyrir 20% af upphaflegu hlutafé.

Erfiðlega hefur gengið að fá nýja fjárfesta eða nýtt fjármagn til að fjármagna áframhaldandi rekstur og því er sú tillaga lögð fram um að færa niður hlutafé um 80% í þeirri von að það auki áhuga fjárfesta.

Í viðræðum við mögulega fjárfesta hefur það verið forsenda þátttöku þeirra í fjármögnun félagsins að hlutafé yrði fært niður um 80%. Á fundinum kom fram að nú þegar hafa fengist hlutafjárloforð fyrir 131.6 milljón króna og að stærstu hluthafarnir hafi enn trú á félaginu þrátt fyrir erfiðleika undanfarin ár. Tillagan var samþykkt samhljóða

Sömuleiðis var samþykkt tillaga um að heimila stjórn félagsins að gefa út nýtt hlutafé að fjárhæð alllt að 150 milljónir króna og að hluthafar falli frá forkaupsrétti vegna þess. Það er gert til að tryggja rekstur og áframhaldandi uppbyggingu seiðaeldis á Hjalteyri og Dalvík næstu 3 árin þarf allt að 150 milljónir króna. Tillaga um að hluthafar falli frá forkaupsrétti er til þess að komast hjá því að fara í formlegt útboð sem er tímafrekt og kostnaðarsamt ferli.