Össur hf. seldi í dag sáraumbúðavörulínu félagsins til BSN medical GmbH. Andvirði sölunnar nemur 11 milljónum Bandaríkjadala og getur hækkað um allt að 6 milljónir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hluti af söluandvirðinu verður notað til að mæta kostnaði við málaferli vegna einkaleyfa fyrir þessa vörulínu sem Össur hefur staðið í, en Össur mun áfram reka málin.

BSN medical er alþjóðlegt fyrirtæki á heilbrigðismarkaði sem sérhæfir sig í m.a. í sáraumbúðum. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Þýskalandi en hefur starfsstöðvar í Evrópu, Ameríku og Asíu auk þess að vera með samstarfs- og dreifisamninga á öðrum svæðum.

Sölunni á sáraumbúðavörulínunni er ætlað að styrkja áherslur Össurar á lykilstarfsemi félagsins, sem er að auka hreyfigetu fólks með nýsköpun í  tækni á sviði stuðningsvara, gervilima og vörum til að nota við blóðrásameðferðir.