Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur verið kjörinn leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins UMP og segir í frétt BBC að litið sé á kosningasigur Sarkozy sem fyrsta skref hans í átt að forsetahöllinni.

Hann þurfti að vinna með töluverðum meirihluta og hafði vonast til að fá 70% atkvæða, en hann svo fór að hann fékk 64,5% atkvæða í leiðtogakjörinu. Þrátt fyrir óvinsældir sitjandi forseta, Francois Hollande, hefur UMP ekki tekist að vinna á í skoðanakönnunum.

Þegar Sarkozy var fyrst kjörinn leiðtogi UMP árið 2004 fékk hann 85% atkvæða og gegndi embætti forseta á árunum 2007-2012. Hann dró sig í hlé frá stjórnmálum eftir tap sitt gegn Hollande, en vill nú stíga fram á völlinn að nýju.