SAS tapaði meira en milljarði norskra króna fyrir skatt á öðrum fjórðungi rekstrarárrs síns eða liðlega 21 milljörðum íslenskra króna. Þótt það sé mikið tap varð það þó heldur minna en sérfræðingar höfðu reiknað með en spá þeirra hljóðiaði upp á 1,4 milljarða norskra króna tap. Stjórnendur SAS hafa greint frá því að gripið verði til sparnaðar- og hagræðingaaðgerða til þess að gera flugfélagið samkeppnishæft. „SAS verður að geta keppt á jafnréttisgrundvelli við keppinauta sína og verður því að minnka þann mun sem er á milli kostnaðar hjá þeim og SAS. Fyrir félagið er þetta spurning um að lifa af,“ sagði Mats Jansson, forstjóri SAS í fréttatilkynningu.

SAS hefur þegar tilkynnt um sparnaðaraðgerðir upp á um 4,5 milljarða norskra króna en nú á enn að bæta í og mun væntanlega þýða að á bilinu eitt til eitt þúsund og fimm hundruð starfsmönnum verði sagt upp.