Tilraunir til að binda endi á deilur um framtíð iðnaðarsamsteypunnar Stork í Hollandi virðast vera komnar í algjöran hnút. Í dag slitnaði upp úr viðræðum stjórnar Stork með hluthöfum félagsins. LME fjárfestingafélag er stærsti einstaki eigandinn í Stork og hefur lýst andstöðu við yfirtökutilboð breska fjárfestingafélagsins Candover. Átti að reyna á fundinum að lægja öldurnar sem leikið hafa um félagið undanfarin misseri. Í erlendum fjölmiðlum segir m.a. að yfirtökutilboð sé nú í uppnámi.


LME sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fundarins þar sem segir m.a.:
?LME ræður yfir vel ríflega 30% hlutafjár í Stork N.V. og er þar með stærsti einstaki hluthafinn í félaginu. LME er fjárfestingarfélag í eigu Landsbanka Íslands, Marel Food Systems og Eyris Invest. Marel og Stork Food Systems hafa verið í samstarfi um þróun og markaðssetningu lausna til viðskiptavina á sviði matvælavinnslu í um átta ár og hafa verið í viðræðum um nánara samstarf og hugsanlega sameiningu félaganna frá desember 2005. LME hefur verið hluthafi í Stork N.V. móðurfélagi Stork Food Systems frá byrjun árs 2006.


LME hefur nú fjárfest um 500 milljónir Evra í Stork samstæðunni móðurfélagi Stork Food Systems. Stork N.V. rekur auk matvælavinnsluhluta einnig rekstrareiningar tengdar flugiðnaði og tækniþjónustu einkum olíu- og gasiðnaði, en LME sér ekki aðeins tækifæri í matvælavinnsluhluta félagsins, heldur einnig í öðrum atvinnugreinum félagsins. LME er sannfært um að tækifæri sé til þess að skapa aukinn virðisauka fyrir hluthafa í félaginu. LME hefur lýst yfir að það muni ekki samþykkja auglýst yfirtökutilboð Candover upp á 47 Evrur á hlut. Nokkrir aðrir hluthafar hafa jafnframt lýst því yfir að þeir séu óánægðir með fyrirliggjandi yfirtökutilboð. Það er jafnframt ljóst að ?Private Equity? sjóðurinn Candover og stjórnendur Stork telja að yfirtökutilboð upp á 47 Evrur á hlut gefi svigrúm til aukins virðisauka fyrir eigendur enda stefndu þessir aðilar að taka yfir félagið í sameiningu.


Þegar Candover lýsti yfir fyrirætlun sinni um að gera yfirtökutilboð réði LME yfir 10,91% af hlutafé Stork, en þegar yfirtökutilboð var lagt fram þá hafði LME gerst kjölfestueigandi með 25,37% hlutafjár samkvæmt flöggun til hollenska fjármáleftirlitsins. Framangreint sýnir að þegar yfirtökutilboðið var lagt fram þá voru stjórnendur Stork og Candover vel upplýstir um áhuga LME á Stork samstæðunni, en þrátt fyrir það líta þessir aðilar fram hjá þessari staðreynd og halda áfram eigin fyrirætlunum. Það er afar sjaldgæft að reynd sé yfirtaka á félagi án þess að samráð sé haft við stærsta hluthafann í félaginu og þegar ljóst er að nær helmingur hluthafa hafa lýst yfir andstöðu sinni við tilboðið.
Fyrir um tveimur árum settu stjórnendur Stork könnun í gang til að skoða hagkvæmni afskráningar félagsins. Samkvæmt stjórnendum var öllum áhugasömum aðilum boðin þátttaka en skilyrði var að halda áfram ?þriggja stoða? stefnu félagsins. Kostnaður við þessa rannsókn nam 17 milljónum Evra, jafnvel þó að niðurstaðan væri sú að halda rekstri óbreyttum. Harðar deilur hófust milli stjórnenda félagsins og hluthafa þess, einkum tveggja lykilhluthafa, Centaurus og Paulson. Deilurnar sneru að því hvort félagið skyldi vera áfram samsteypa óskyldra rekstrareininga eða hvort félaginu skyldi skipt upp þannig að hver rekstrareining gæti tekið þátt í alþjóðavæðingu og sameiningum sem átti sér stað innan viðkomandi atvinnugreina. Niðurstöður þessara deilna er mönnum ljós, en beðið er eftir niðurstöðu rannsóknardóms á málinu sem átti að kynna í enda júlí, en hefur ekki enn verið kynntur.
Nú í sumar kom yfirlýsing frá Stork um að yfirtökutilboð í félagið væri væntanlegt. Í samræmi við hina staðföstu ?þriggja stoða? stefnu hefði mátt ætla að fundist hefði fjárfestir innan atvinnugreinanna, en þess í stað mun ?Private Equity? aðili gera yfirtökutilboð með þátttöku stjórnenda. Stefna ?Private Equity? fjárfesta er almennt sú að leita uppi vanmetin félög á markaði með umtalsverð dulin verðmæti sem síðan eru endurfjármögnuð og undirbúin fyrir sölu með því að hámarka virði einstakra starfseininga. Þetta sýnir að umræður sem hafa átt sér stað á hluthafafundum á síðustu mánuðum hafa lítið með stefnu að gera eða grundvallarreglur, en hafi í raun frekar verið umræða um tímasetningu og síðar hvernig skipta eigi mögulegum framtíðarávinningi.?

Í lok yfirlýsingarinnar segir að á síðustu tveimur árum hafi stjórnendur lent í sjálfheldu og deilu við hluthafa félagsins sem hefur hindrað framgang félagsins. ?Þetta hefðu þeir mátt koma í veg fyrir með auknum sveigjanleika og raunhæfu mati á stöðu félagins.?