Carlos Tavares, framkvæmdastjóri rekstrar og einn af æðstu stjórnendum franska bílaframleiðandans Renault, hætti óvænt störfum í morgun. Carlos Ghosn, forstjóri bílarisans, mun taka tímabundið við störfum hans. Talskona fyrirtækisins vísaði því hins vegar á bug í samtali við AP-fréttastofuna að Tavares væri á förum frá fyrirtækinu.

Breska dagblaðið Financial Times segir um málið á vef sínum í dag að soðið hafi upp úr á stjórnarfundi Renault eftir að Tavares viðurkenndi það í viðtali á dögunum að hann telji það ólíklegt að hann taki við stöðu Ghosn þegar forstjórastóllinn losnar. Hann hafi frekar hug á að leita að forstjórastöðu annars staðar, s.s. hjá bandarísku bílarisunum GM eða Ford. Ástæðan fyrir þessu sagði Tavares þá að langt sé í að Ghosn hætti störfum. Það gæti jafnvel ekki orðið fyrr en eftir fimm ár og vilji hann ekki bíða í svo langan tíma.

Tavares er 55 ára og hefur verið talinn líklegur eftirmaður Ghosn, sem er fjórum árum eldri.