Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hefur ákveðið að opna útibú í Danmörku, sem mun bjóða viðskiptavinum þar fyrirtækjaráðgjöf, fjármögnun með sérstakri áherslu á fyrirtækjakaup og aðra fjárfstingabankaþjónustu. Ákvörðun þessi er rökrétt framhald aukinna umsvifa bankans í Danmörku á undanförnum misserum.

Sem liður í því ferli hefur bankinn fest kaup á ráðgjafafyrirtæki í Danmörku sem verið hefur í eigu Oscar Crohn og Jesper Johansen. Báðir hafa langa reynslu í fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingabankastarfsemi í Danmörku og störfuðu áður m.a. hjá Capitellun A/S og Enskilda Securities. Útibúið verður staðsett í Kaupmannahöfn og verður undir stjórn Oscar Crohn og Jesper Johansen og mun heyra undir fyrirtækjasvið bankans. Útibúið verður opnað um leið og öll leyfi liggja fyrir en áætlað er að það verði innan fárra mánaða.