Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur stefnt Seðlabankanum til að fá launakjör sín leiðrétt, þar sem hann telur þau ekki í samræmi við það sem um var samið þegar hann tók við sem Seðlabankastjóri. Kom þetta fram í fréttum Stöðvar 2.

Már tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2009. Bankaráð sá um að semja um laun við hann og var niðurstaðan sú að hann fengi tæplega 1.575 þúsund krónur á mánuði.

Í sama mánuði var lögum um kjararáð breytt þannig að valdið til að ákveða laun ýmissa yfirmanna stofnanna og ríkisfyrirtækja, þar á meðal seðlabankastjóra, var fært yfir til kjararáðs. Þá var einnig kveðið á um það í lögunum eftir breytingu að dagvinnulaun yfirmannanna ættu ekki að vera hærri en föst laun forsætisráðherra sem voru 935 þúsund krónur á mánuði.

Í framhaldinu, eða í mars 2010, voru laun seðlabankastjóra lækkuð. Dagvinnulaun hans urðu 862 þúsund krónur á mánuði. Auk þess var ákveðið að greiða honum fasta yfirvinnutíma í hverjum mánuði. Með öllu urðu því launin tæpar 1.266 þúsund krónur og lækkuðu þau því um rúmar 300 þúsund krónur.