Philipp Hildebrand, bankastjóri seðlabanka Sviss, sagði óvænt af sér í dag. Ástæðan er umfangsmikið gjaldeyrisbrask eiginkonu seðlabankastjórans þremur vikum áður en bankinn greip til aðgerða til að draga úr gengishækkun svissneska frankans.

Hildebrand hafði verið seðlabankastjóri í tvö ár.

Eiginkona seðlabankastjórans átti í gjaldeyrisviðskiptum upp á jafnvirði hálfrar milljóna dala, jafnvirði rúmra 60 milljóna íslenskra króna.

Seðlabankastjórinn Hildebrand fullyrti á blaðamannafundi í dag að hann hafi ekkert vitað um gjaldeyrisviðskipti konu sinnar sem teljast til innherjaupplýsinga.