Næsta gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands, sem liður í afnámi gjaldeyrishafta, lýkur 28. mars næstkomandi, þegar frestur til þess að skila inn tilboðum rennur út. Bankinn býðst til þess að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða í löngum ríkisverðbréfaflokki, RIKS 33 0321. Jafnframt kallar Seðlabankinn eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri.

Tilkynnt er um útboðin á heimasíðu Seðlabankans í dag. Útboðin eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum. Bankinn býðst til þess að kaupa samtals 100 milljónir evra í gjaldeyrisútboðunum tveimur. Útboðsfjárhæðin er háð þeim fyrirvara að hún er sameiginleg báðum útboðum, og kann því að taka endanlegt mið af því.

Í krónukaupaútboðinu býðst bankinn til að kaupa 25 milljarða króna gegn greiðslu í evrum.

Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn heldur uppboðin samhliða. Hingað til hefur bankinn fyrst boðist til þess að kaupa aflandskrónur fyrir evrur, og síðan boðist til að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur nokkrum vikum eða mánuðum síðar.

„Markmið þessara aðgerða er að selja krónur fyrir gjaldeyri til aðila sem ákveðið hafa að fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða í skuldabréfum ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga með þeim hætti úr endurfjármögnunarþörf auk þess að laða til landsins erlendan gjaldeyri í langtímafjárfestingar og auðvelda þannig losun gjaldeyrishafta.

Útboðinu um kaup á krónum er ætlað að stuðla að því að fjárfestar geti selt krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Lausafjárstaða bankanna er nægilega sterk til þess að standast tilfærslur á þeirri krónufjárhæð sem Seðlabankinn býðst til að kaupa og með ofangreindum endurkaupum á ríkisbréfum er dregið úr mögulegum hliðaráhrifum viðskiptanna á skuldabréfamarkað,“ segir í tilkynningu á vef Seðlabankans. Samkvæmt útboðsáætlun er stefnt að næstu útboðum 9. maí og 20. júní.