Hilda, dótturfélag Eignasafns Seðlabanka Íslands, hefur tekið yfir liðlega 500 eignir sem áður voru í eigu Hlíðar, fasteignafélags Dróma. Eignirnar eru fullnustueignir sem þrotabú SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans eignuðust eftir uppgjör við lánþega sem ekki gátu staðið í skilum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru þetta rúmlega 500 fastanúmer, en það geta verið íbúðir eða annarskonar fasteignir, jarðir og íbúðalóðir.

Verðmæti eignasafnsins um 4,2 milljarðar
Viðskiptablaðið hefur ekki fengið upplýsingar um það á hvaða verði eignirnar voru færðar yfir. „Það hefur ekki verið gefið upp,“ segir Magnús Steinþór Pálmarsson hjá Dróma. En í skýringum við ársreikning Dróma fyrir árið 2012 kemur fram að verðmæti fullnustueigna og lóða hafi verið tæpir 4,2 milljarðar króna í árslok 2012. Magnús Steinþór segir að eignirnar hafi verið í eigu margra ólíkra aðila áður en Drómi tók þær yfir. Bæði voru einstaklingum veitt lán til íbúðakaupa og verktökum veitt lán til framkvæmda.

Haukur C Benediktsson, framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki hafi verið ákveðið hvað verði um þessar eignir sem Hilda tók yfir. „Það er í raun og veru eitthvað sem við erum að skoða og höfum verið að skoða. Hvernig við getum komið þessu í verð og lágmarkað áhættuna hjá okkur,“ segir Haukur. Þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir svörum frá Íbúðalánasjóði um hvort sjóðurinn myndi hugsanlega kaupa þessar eignir fengust engin svör.

Greint var frá því 30. desember síðastliðinn að samningar hefðu náðst milli Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., Hildu og Arion banka hf. um yfirtöku Hildu á ákveðnum eignum og skuldum Dróma og uppgjöri á kröfu Arion banka á Dróma.

Skuld Dróma við Arion banka, sem í upphafi var tæpir 100 milljarðar króna, var komin til vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, frá 21. mars 2009, um að færa innlánsskuldbindingar SPRON yfir til Arion banka. Eignir SPRON, þar með talin útlán, voru settar í sérstakt félag, Dróma, og veðsettar Arion banka til tryggingar innlánsskuldinni.

Íslenska ríkið á meira en 3700 fullnustueignir
Landsbanki Íslands átti um áramót 606 fullnustueignir. Þar af eru 243 eignir sem flokkast undir íbúðahúsnæði, 166 eignir sem flokkast undir iðnaðar- eða skrifstofuhúsnæði, 155 lóðir, 13 sumarhús og 29 eignir sem má flokka undir annað. Undir síðasta flokkinn teljast til dæmis jarðir. Íslandsbanki á samtals 407 íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og lóðir. Arion banki á 239 fullnustueignir og þar af eru 157 íbúðir.

Flestar eignir á Íbúðalánasjóður, en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru þær 2600. Íbúðalánasjóður og Landsbanki Íslands eiga samtals 3200 eignir, en þessar stofnanir eru báðar í eigu ríksins. Að meðtöldum 500 fullnustueignum Eignasafns Seðlabankans er því heildarfjöldi fullnustueigna í eigu íslenska ríkisins yfir 3700.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.