Gangi frumvarp um nauðasamninga Sparisjóðabankans (áður Icebank) eftir þá fær Eignasafn Seðlabanka Íslands um 73 milljarða króna. Aðrir kröfuhafar Sparisjóðabankans fá samkvæmt frumvarpinu ríflega 19 milljarða króna sem jafngilda um 22,8% samþykktra krafna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu segir m.a. um frumvarpið að kröfuhöfum standi m.a. til boða að fá greitt með kröfu á hendur þrotabúi Kaupþings en þar er miðað við 16% nafnvirði krafna í búið.

Þá segir í blaðinu að kröfuhafar geti valið á milli fjögurra leiða til að fá kröfur sínar greiddar. Sumar þeirra gera ráð fyrir greiðslu í erlendri mynt. Vilji allir erlendir kröfuhafar Sparisjóðabankans fá borgað í gjaldeyri gætu slíkar greiðslur til þeirra numið um 13,5 milljörðum. Slitastjórn Sparisjóðabankans hefur þegar sent undanþágubeiðni til Seðlabankans vegna þessa, samkvæmt Morgunblaðinu.