Viðar Þorkelsson, forstjóri kortafyrirtækisins Valitor, greindi frá því á ráðstefnu í liðinni viku að alþjóðlegu kortafyrirtækin VISA og Mastercard hefðu íhugað alvarlega að svipta íslensku kortafyrirtækin leyfum sínum til kortaútgáfu og færsluhirðingar þegar bankakerfið hrundi og tók íslenska hagkerfið með sér í fallinu haustið 2008. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gekk málið þó enn lengra en svo því Seðlabankinn þurfti að gangast í ábyrgð fyrir íslensku fyrirtækin til þess að tryggja að þau fengju að halda áfram áðurnefndri starfsemi.

Þegar Viðskiptablaðið bar þetta undir Viðar sagði hann Seðlabankann hafa gefið út yfirlýsingu þess efnis að nægur gjaldeyrir væri til í landinu til þess að tryggja að Valitor og Borgun gætu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegu fyrirtækjunum. Hvort kalla megi það ábyrgðaryfirlýsingu segir hann þó umdeilanlegt. Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir fyrirtækið hafa þurft að leggja fram tryggingu gagnvart Mastercard vegna færsluhirðingar sinnar en Seðlabankinn hafi þurft að ábyrgjast uppgjör hinna föllnu banka við íslensku kortafyrirtækin, gagnvart VISA og Mastercard.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma einnig að Mastercard hafi verið mun tregara í taumi við að taka áðurnefnda yfirlýsingu góða og gilda og hafi stefnt að því að svipta íslensku fyrirtækin leyfum þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi ábyrgst þau. Þessu hafi hins vegar verið afstýrt með því að hóta Mastercard því að fyrirtækinu yrði í raun vísað út af íslenskum kortamarkaði. Þá hafi verið unnið að áætlun þess efnis að tryggja öllum íslenskum korthöfum Master card kort frá keppinautnum VISA ef Mastercard gæfi sig ekki. Á þá áætlun reyndi þó aldrei þar sem Mastercard lét undan að lokum.

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.