Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur, og er það í samræmi við spár markaðsaðila.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir að þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung ársins 2012 séu í stórum dráttum í samræmi við spá bankans frá því í maí um að hagvöxtur myndi halda áfram að draga úr slakanum í þjóðarbúskapnum. Efnahagsbatinn nái nú til flestra sviða efnahagslífsins og þróttur innlendrar eftirspurnar sé töluverður. Merki um bata á vinnu- og fasteignamarkaði verði æ skýrari.

„Verðbólga hjaðnaði nokkuð í maí. Eftir sem áður eru horfur á því að hún verði lengur fyrir ofan verðbólgumarkmið en ásættanlegt er, einkum ef gengi krónunnar helst áfram lágt. Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum hefur aukist að undanförnu, ekki síst vegna fjármálakreppunnar í Evrópu. Þessar aðstæður valda frekari óvissu um innlendar efnahags- og verðbólguhorfur. Peningastefnan gæti því á næstunni þurft að bregðast við atburðum sem hefðu umtalsverð áhrif á hagvöxt og verðbólgu hér á landi. Eins og endranær mun peningastefnunefndin þá miða að því að ná verðbólgumarkmiði til lengdar á sama tíma og reynt yrði að draga úr innlendum efnahagssveiflum,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar.

„Laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hefur stutt við efnahagsbatann. Hækkun vaxta í maí og nú aftur í júní hefur dregið úr slaka peningastefnunnar eins og eðlilegt er í ljósi efnahagsbatans og verri verðbólguhorfa. Eftir því sem efnahagsbatanum vindur frekar fram og slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar,“ segir að lokum í tilkynningunni.