Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda meginvöxtum óbreyttum, en þeir eru núna 5,75%. Nefndin ákvað einnig að bindiskylda yrðu lækkuð um 1,5%.

Í rökstuðningi sínum varðandi ákvörðun meginvaxta bendir Seðlabankinn á að hagvöxtur hafi verið 4,5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins og að kröftugur bati haldi einnig áfram á vinnumarkaði. Verðbólguhorfur til skamms tíma hafi einnig batnað frá nóvemberspá bankans, en verðbólga mældist 2% í nóvember. Verðbólga hafi aukist minna en spáð hafi verið vegna lækkana á alþjóðlegu verði á hrávöru- og olíuverðs og hækkunar á gengi krónunnar, sem hefur vegið á móti innlendum verðhækkunum.

Lækka bindiskyldu til að milda lausafjáráhrif stöðugleikaframlaga

Varðandi bindiskyldu segir peningastefnunefndin að hún hafi hækkað bindiskyldu tímabundið í september sl. úr 2% í 4% í því skyni að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup Seðlabankans og losun fjármagnshafta. Peningastefnunefnd hefur nú ákveðið að lækka bindiskyldu á ný úr 4% í 2,5% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. desember nk. til þess að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum. Áformað er að bindiskylda lækki að öðru óbreyttu á ný í 2% í tengslum við fyrirhugað útboð vegna svokallaðra aflandskróna.