Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa segir svigrúm vera til vaxtalækkunar, þvert á ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sem ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum.

„Í fyrsta lagi eru verðbólguhorfur mjög góðar, jafnvel betri en þeir eru að gera ráð fyrir í sínu líkani, viðskiptaafgangurinn er mikill og verður áfram umtalverður og það skapar svigrúm til vaxtalækkunar,“ segir Haraldur.

„Að sama skapi er Seðlabankinn kannski með einhverja dýpri yfirsýn yfir aðstæður.“

Pólítíkin skapar aukna hættu á slaka í ríkisfjármálum

Haraldur segir að bankinn gæti verið að taka tillit til þeirrar pólítísku áhættu sem nú sé uppi varðandi ríkisstjórnarmyndun.

„Þeir eru að segja að það ríki ákveðin óvissa um hvaða stefna verður tekin í ríkisjármálum,“ segir Haraldur.

„Ef það slaknar mjög á ríkisfjármálunum, þá eru það góð og gild rök fyrir aðhaldi í peningamálunum. Þeir gefa svolítið í skyn að það hafi aðeins verið slakað á ríkisfjármálunum á undanförnum tveimur árum, en þeir eru að gefa sér þarna að næsta ríkisstjórn muni mögulega slaka töluvert meira á í ríkisfjármálunum.“

Vaxtamunurinn vegur á móti óvissu um útflæði fjármagns

Haraldur segir að það að áframhaldandi verði mikill vaxtamunur milli Íslands og flestra viðskiptalanda okkar muni að óbreyttu laða fjármagn til landsins.

„Það styður við krónuna sem vegur upp á móti óvissu um hversu mikið útflæði fjármagns verður við afnám gjaldeyrishafta,“ segir Haraldur.

„Ef við horfum á okkar helstu viðskiptalönd, þá er vaxtaumhverfið allt annað, sem laðar fjármagn til landsins.“