Seðlabankinn felst ekki á þá afstöðu embættis ríkissaksóknara að hætta rannsókn á málum sem gjaldeyriseftirlit Seðlabankans vísaði til rannsóknar vegna gruns um brot á gjaldeyrisreglum. Málin varða meðal annars Heiðar Má Guðjónsson fjárfesti og hefur Seðlabankinn óskað eftir fundi með ríkissaksóknara vegna þeirrar ákvörðunar að hætta rannsókn.

Vegna fyrirspurna sem Seðlabankanum hafa borist um málið í dag sendu þeir eftirfarandi tilkynningu:

Í nóvember 2010 vísaði gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra 4 málum sem vörðuðu skuldabréfaútgáfur sem grunur lék á að færu í bága við ákvæði reglna sem Seðlabanki Íslands hafði sett um gjaldeyrismál. Í september 2011 var efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans lögð niður og málin færðust til embættis sérstaks saksóknara.

Í febrúar 2012 tók embætti sérstaks saksóknara ákvörðun um að hætta rannsókn málanna meðal annars vegna erfiðleika við að afla sönnunargagna erlendis frá. Seðlabankinn kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari hefur nú tekið afstöðu í málinu og staðfest ákvörðun sérstaks saksóknara.

Seðlabankinn fellst ekki á rökstuðning fyrir afstöðu embættis ríkissaksóknara og hefur óskað eftir fundi með ríkissaksóknara þar sem farið verður yfir málið.

Það er afstaða Seðlabankans að fullt tilefni hafi verið til að vísa málunum til lögreglu.