Seðlabankinn seldi þrjár milljónir evra á gjaldeyrismarkaði síðastliðinn fimmtudag, 23. maí, og námu viðskiptin því 481 milljón íslenskra króna. Telja verður líklegt að um viðbrögð við veikingu krónunnar undanfarið hafi verið að ræða. Á tímabilinu 6. maí til 23. maí fór gengi krónu gagnvart evru úr 150 í 160 og veiktist hún því um 6,7% á tímabilinu.

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn selt gjaldeyri fyrir 7,1 milljarð króna, en hefur engan gjaldeyri keypt á tímabilinu samkvæmt opinberum tölum Seðlabankans.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri boðaði ekki alls fyrir löngu að bankinn myndi verða virkari á gjaldeyrismarkaði en hann hefur verið undanfarin misseri. Þótt Már hafi sagt að markmiðið væri ekki að verja eitthvað ákveðið gengi er ljóst að bankinn vill með inngripum sínum halda gengi krónunnar stöðugra en það hefur verið.