Seðlabanki Íslands hefur lagt inn beiðni til Reykjavíkurborgar um stækkun á höfuðstöðvum sínum, Kalkofnsvegi 1 með því að bæta við nýrri 500 fermetra millihæð í viðbyggingu við húsið.

Fyrir rúmum tveimur árum síðan var greint frá því að Seðlabankinn hefði í hug að að hækka húsnæðið að Kalkofnsveg 1, sem oft er kallað Svörtuloft, um tvær hæðir samhliða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áréttaði þó nokkrum dögum síðar að einungis væri verið að kanna hvort sá möguleiki væri fyrir hendi en slíkar framkvæmdir væru ekki áformaðar. Meiri alvara er að þessu sinni hjá Seðlabankanum, samkvæmt Morgunblaðinu sem ræddi við Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóra á skrifstofu bankastjóra, um málið.

Stefán segir að undanfarið hafi staðið yfir viðhald og endurbætur á húsnæði bankans við Kalkofnsveg 1, þar á meðal hafi lagnir verið endurnýjaðar að stórum hluta. Lokið er endurnýjun tveggja hæða í aðalhluta hússins og unnið er að endurnýjun á tveimur efstu hæðunum.

Einnig stendur til að ráðast í viðhald og endurbætur á fyrstu hæð hússins. Hluti af áformaðri endurnýjun hennar felst í því að lyfta þaki yfir miðrými viðbyggingar (innigarðs) til þess að tengja viðbyggingu og aðalbyggingu betur saman. Undir þakinu á miðrýminu sé talsvert pláss sem ekki hafi nýst til þessa, enda ekki lokað að fullu fyrir veðri og vindum. Áætlað er að við framkvæmdina verði til nýtt 500 fermetra milligólf eða hæð sem á að rúma gangvegi og nokkur fundarherbergi.

„Það þarf hvort eð er að skipta um þak í þessum miðhluta hússins og því er áformað að nýta tækifærið og tengja byggingarnar betur saman til að ná flæði á milli þeirra, en um leið aukast nýtingarmöguleikar á því húsnæði sem nú er nýtt sem aðalinngangur og móttökusalur bankans,“ hefur Morgunblaðið eftir Stefáni Jóhanni.