Samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar skulu sparifjáreigendur njóta verndar að lágmarki 100 þúsund evra, jafnvirði 16 milljóna króna, fari viðkomandi banki á hliðina. Íslenska ríkið er skuldbundið til að innleiða tilskipunina vegna EES-samningsins.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að það sé ekki hægt að búa til tryggingakerfi sem þetta á Íslandi, vegna þess hversu fábreyttur markaðurinn er. Þrír bankar séu með 90% hlutdeild á markaði sem er ólíkt því sem þekkist víða erlendis. Hann hefur því miklar efasemdir um innleiðingu tilskipunarinnar.

Mikill þrýstingur er á EES-ríkin af hálfu ESB að innleiða tilskipunina. Farið var yfir málið á sameiginlegum fundi efnahags- og viðskiptanefndar og utanríkismálanefndar í gær.