Aflétting gjaldeyrishaftanna verður að eiga sér stað sem þáttur í upptöku evrunnar, að sögn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Hann segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að verði það ekki gert muni þúsund milljarða króna snjóhengja aflandskrónueigna breytast í hamfaraflóð sem mun flæða yfir landið.

Fréttaveitan fjallar um kortlagningu stjórnvalda á þrotabúum föllnu bankanna og áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika en það er liður í afnámi gjaldeyrishafta. Undir eru kvikar krónur í hagkerfinu, greiðslur inn á skuldabréf í eigu erlendra aðila, skilyrta skuldabréf Landsbankans og nauðasamninga föllnu bankanna. Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra kynnti kortlagninguna fyrir ríkisstjórn seint í febrúar. Bloomberg bætir því við að ein sviðsmyndanna sem dregin hafi verið upp og talin er einfaldasta leiðin til stöðugleika er innganga Íslands í Evrópusambandið og upptaka evru sem þjóðargjaldmiðils. Í tengslum við þetta er rifjað upp að bæði Katrín og Már Guðmundsson seðlabankastjóri telji óvíst hvort hægt verði að leyfa krónunni að fljóta á nýjan leik eins og áður eftir afnám gjaldeyrishafta.

Segir evruna einu lausnina

Össur segir í samtali við Bloomberg ekki telja kosningar og hugsanlega nýja ríkisstjórn sem taki við af Samfylkingu og VG breyta miklu um þá leið sem framundan er í gjaldmiðlamálum.

„Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir vilji skoða upptöku annars gjaldmiðils. Sumar lausnirnar hafa verið lagðar til eru dularfullar, s.s. upptaka Kanadadollars. En ef horft er á málið af fullri alvöru þá er aðeins ein lausn og að er upptaka evru,“ segir hann.