„Frétt Morgunblaðsins er í það minnsta ónákvæm ef hún er ekki að mörgu leyti röng," segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs í samtali við Viðskiptablaðið.

Á baksíðu Morgunblaðsins í morgun er birt frétt um að ákveðið hafi verið að flytja erlend íbúðalán heimila frá viðskiptabönkunum til Íbúðalánasjóðs. Um leið eigi að breyta lánunum í venjuleg íslensk verðtryggð íbúðalán.

Guðmundur segir ekkert hafa verið ákveðið í þessum efnum.

Íbúðalánasjóður hefur þó verið að vinna í innlendu lánunum, og það er í forgangi að sögn Guðmundar. „Það er ekki verið, að okkur vitandi, að vinna í flutningi á erlendum lánum til Íbúðalánasjóðs," segir hann.

Þetta staðfestir Viðskiptaráðuneytið, en Þorfinnur Ómarsson upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sendi eftirfarandi á fjölmiðla fyrir stuttu: „Rétt er að taka fram vegna fréttar á baksíðu Morgunblaðsins í morgun að engar ákvarðanir hafa verið teknar um yfirtöku íbúðalánasjóðs á íbúðalánum viðskiptabankanna, hvorki í íslenskum krónum né í erlendri mynt.“

Nánar verður fjallað um stöðu íbúðalána og flutning þeirra yfir til Íbúðalánasjóðs í Viðskiptablaðinu á morgun.