Kaupmáttur launa jókst meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum á árunum 1997-2017. Það segir þó ekki alla söguna því skuggahlið batnandi lífskjara á Íslandi á þessu tímabili var meiri verðbólga, hærri vextir og meiri sveiflur í efnahagslífi en í samanburðarlöndunum.

Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í ítarlegri grein í tímaritinu Þjóðmál sem kom út í dag og fæst í betri bókaverslunum.. Í greininni, sem ber yfirskriftina  Aukin framleiðni – forsenda betri lífskjara, rekur Hannes hvernig aukin framleiðni, þ.e. aukin verðmætasköpun á hverja vinnustund, sé grundvöllur betri lífskjara.

„Þetta efnahagslögmál á sér þó færri talsmenn en að bætt kjör megi einkum þakka baráttu hugsjónafólks. Verðmæti skapast í flóknu samspili margra þátta í atvinnulífinu og viðhorf sem ekki taka mið af því kunna að eiga stóran þátt í linnulitlum kjaraátökum hér á landi,“ segir Hannes.

„Lífskjör hefðu líklega batnað enn meira síðustu áratugi með minni átökum um skiptingu gæðanna og jafnari og hófstilltari þróun launa, verðlags og vaxta.“

Meira en tvöfalt meiri verðbólga og launahækkanir

Hannes rifjar sem fyrr segir upp að kaupmáttur launa hafi aukist meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum á árunum 1997-2017. Kaupmáttur jókst um 2,4% árlega að jafnaði á Íslandi, 2,1% í Noregi, 1,7% í Svíþjóð og 1,1% í Danmörku. Þá var kaupmáttaraukningin í heild 61% á Íslandi, 50% í Noregi, 39% í Svíþjóð og 23% í Danmörku á þessu tímabili.

„Þetta segir þó ekki alla söguna. Skuggahlið batnandi lífskjara á Íslandi á þessu tímabili var meiri verðbólga, hærri vextir og meiri sveiflur í efnahagslífi en í samanburðarlöndunum. Samanburður við Norðurlandaríkin þrjú sýnir að launahækkanir á Íslandi voru að jafnaði tvöfalt til þrefalt meiri, verðbólga tvöfalt til fjórfalt meiri og stýrivextir einnig tvöfalt til fjórfalt hærri,“ segir Hannes.

„Mikil verðbólga leikur þá verst sem við lökust kjör búa og bera þunga framfærslubyrði. Háir vextir leggjast hlutfallslega þyngst á ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði og leigjendur, en gera má ráð fyrir að í báðum hópunum sé hátt hlutfall lágtekjufólks. Enginn vafi leikur á því að velferð landsmanna hefði aukist enn meira ef kaupmáttaraukning launa hefði átt sér stað við lægri verðbólgu og vexti.

Í Noregi var til að mynda næstum jafn mikil kaupmáttaraukning og á Íslandi á þessu tímabili en verðbólgan var rúmlega helmingi minni. Svíar náðu sínum ágæta árangri með tæplega 3% launahækkunum og 1% verðbólgu árlega að jafnaði. Íslendingar mættu gjarnan læra af eigin reynslu og nágrannaþjóðanna.

Haft er eftir Otto von Bismarck að kjánar segist læra af eigin reynslu en hann kjósi að læra af reynslu annarra. Lærdómurinn er einfaldlega sá að stilla launahækkunum í hóf svo þær séu í samræmi við verðmætasköpun á hverjum tíma og leggja áherslu á efnahagsstjórn sem jafnar efnahagssveiflur eins og kostur er.“

Lesa má viðtalið í heild í Þjóðmálum , ásamt fjölda af annarri umfjöllun, en hægt er að skrá sig í áskrift á facebook síðu tímaritsins eða með pósti á [email protected]