Gjaldeyrishöftin eru farin að trufla fjárfestingar fagfjárfesta. Þeir þurfa að geta dreift áhættunni og fjárfest erlendis, að sögn Hermanns Björnssonar, forstjóra tryggingafélagsins Sjóvár.

Bloomberg-fréttastofan ræðir við Hermann í dag í tilefni af því að hlutabréf félagsins verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í morgun. Þetta verður 14. félagið á hlutabréfamarkaðnum.

Í umfjöllun um Sjóvá og höftin er rifjað upp að ríkissjóður hafi þurft að koma Sjóvá til hjálpar árið 2009 þegar hann lagði tryggingafélaginu til 11,6 milljarða króna. Slitastjórn Glitnis og Íslandsbanki lögðu Sjóvá til fjóra milljarða til viðbótar. Þá er bent á að árið 20011 hafi félagið SF1 slhf keypt 52,4% hlut Eignasafns Seðlabankans í Sjóvá fyrir 4,9 milljarða króna.

Hermann ræðir jafnframt um hlutafjárútboð Sjóvár í aðdraganda skráningar á markað. Hann bendir á að miðað við eftirspurnina í útboðinu sé ljóst að íslenski markaðurinn, sem gjaldeyrishöft loki, sé of lítill.