Lögsögumaður við Evrópudómstólinn, Niilo Jääskinen, hefur komist að þeirri niðurstöðu að löggjöf Evrópusambandsins um kaupauka í fjármálageiranum standist grundvallarreglur sambandsins. Bresk stjórnvöld hafa vísað málinu til Evrópudómstólsins og vilja að hann taki afstöðu til gagnrýni þeirra á löggjöfina. BBC greinir frá.

Hún takmarkar kaupaukagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja við 100% af reglulegum launum þeirra, en hlutfallið má fara upp í 200% að gefnu samþykki hluthafa. Reglunum er ætlað að tempra áhættusækni bankastarfsmanna, en gagnrýnendur segja að áhrifin verði þau að ýta upp reglulegum launum og rekstrarkostnaði bankanna.

Talsmaður samtaka breskra fjármálafyrirtækja segir að hluthafar fjármálafyrirtækja eigi að ákveða laun starfsmanna, en það eigi ekki að vera í höndum stjórnmálamanna. Nýju reglurnar muni ýta upp föstum launum í bönkunum og gera samkeppnisstöðu evrópskra banka verri en ella.

Álit lögsögumannsins er ekki bindandi, en Evrópudómstóllinn kann að taka mið af afstöðu hans þegar dómur er kveðinn upp á næsta ári.