Evrukrísan sem varað hefur í fjögur ár er búin, að sögn Francois Hollande, forseta Frakklands. Þetta sagði hann japönskum blaðamönnum á ferð sinni sem nú stendur yfir í Japan. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir fullyrðingar forsetans skjóta nokkuð skökku við í skugga þess að atvinnulausir hafi aldrei verið jafn margir á evrusvæðinu auk þess sem menn hafi verulegar áhyggjur af því hvort evran muni hafa það eftir björgunaðgerðir bæði Grikklands og nú síðast Kýpur.

„Ég er sannfærður um að kreppan mun styrkja evrusvæðið en ekki veikja það,“ sagði Hollande og taldi fram allt regluverkið sem búið sé að byggja upp og innleiða til að kveða kreppuna niður. Allt muni þetta skila af sér sterkara evrusvæði.