Ólafur Örn Nielsen, fv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og íbúi í Garðabæ, hefur sent umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna þess sem hann telur hlutdrægrar framsetningar í kynningarefni, útgefnu og fjármögnuðu, af hálfu Garðabæjar í aðdraganda kosningar um sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi Erni. Hann sendi þann 24. september sl. fyrirspurn til Athygli ehf., sem annast kynningu á málinu fyrir sveitarfélögin, og spurði hvort eingöngu stæði til að kynna kosti þess að segja já í kosningunni í því kynningarefni sem gefið hafði verið út.

Í tilkynningunni vísar Ólafur Örn í svar starfsmanns Athygli þar sem fram kemur að það sé „ekkert launungarmál“ að kynningarefnið sé„sett upp með það fyrir augum að kynna kosti sameiningar enda samþykktu bæjarstjórnir beggja sveitarfélaga að boða til kosninga um málið.“

Í kvörtuninni til Umboðsmanns Alþingis segir Ólafur Örn að það sé ljóst að ekki hafi staðið til að kynna málið á hlutlausan hátt fyrir bæjarbúum.

„Það kynningarefni sem gefið hefur verið út og er fjármagnað með fjármunum bæjarbúa endurspeglar aðeins skoðun bæjarstjórna sveitarfélaganna en kynnir ekki málið á hlutlausan hátt,“ segir Ólafur Örn.

„Íbúar sveitarfélaganna hafa ekki forsendur til þess að taka ákvörðun um svo afdrifaríkt mál í kosningunum á laugardaginn. Ég tel mig knúinn til að segja nei í kosningunum.“

Þá kemur fram að Ólafur Örn telji það líklegt að Umboðsmaður taki undir þessi sjónarmið, enda hefur hliðstætt mál áður komið inn á borð Umboðsmanns. Þar vísar Ólafur Örn til þess þegar Samband ungra sjálfstæðismanna kvartaði til Umboðsmanns vegna kynningarefnis stjórnvalda í aðdraganda Icesave kosninganna í byrjun árs 2009 (sjá hér ).