Sverrir Bergmann sem rekur Herrahúsið Adam á Laugarvegi lýst ekki á loforð meirihlutans í Reykjavík í nýjum málefnasamningi Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata um að loka götunni fyrir bílaumferð.

„Ef þessi stjórn sem er að taka við núna ætlar sér að loka Laugaveginum, þá er ég farinn héðan, það er bara svoleiðis. Það er ekki hægt að það sé alltaf verið að herða aðgengið að miðbænum,“ segir Sverrir ómyrkur í máli og tekur þannig harðar í árina en Jón í Jón & Óskar sem Viðskiptablaðið ræddi við í gær .

„Það er verið að fækka stæðum, setja upp hjólabrautir sem sáralítið eru notaðar og svo allar þessar lokanir. Þetta einfaldlega endar á því að hér verða bara veitingahús, kaffihús, svona lífsstíls- og ferðatengdar búðir og lundabúðir. Maður hugsar til skelfingar til þess að ef einhvern tíman fer að draga úr þessum ferðamannastraum, þá endar þetta einfaldlega á því að þetta verði bara að gettó hérna.“

Óttast áhrifin þó gatan verði ekki öll að göngugötu

Sverrir óttast að meirihlutinn ætli sér að gera alla götuna að göngugötu, en hingað til hafa lokanirnar ekki náð til þess hluta götunnar sem er nær Snorrabraut en hann segir þær samt hafa haft slæm áhrif á reksturinn hjá sér. Orðalagið í stefnuskrá meirihlutans er þannig: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“

„Margir af mínum kúnnum er fullorðið fólk sem hefur verið að hringja því það hefur áhyggjur af því að gatan sé lokuð, hvort hægt sé að fá stæði eða hvort ganga þurfi heillangan spöl til að komast til okkar, og svo þarf að borga í mæla og allt það,“ segir Sverrir og segist þekkja til fleiri rekstraraðila á sömu slóðum sem er að glíma við þennan skort á bílastæðum.

„Ég hef rekið þessa verslun hérna á sömu kennitölunni síðan 1990 og ég sé það skýrt að það er allt að horfa til verri vegar beinlínis út af stefnu borgarinnar. Hvernig heldurðu að þetta verði hérna í nóvember og desember, í annað hvort hörkufrosti eða roki og rigningu?

Heldurðu að það verði fullur Laugavegur af fólki sem ætlar sér að versla og bera það sem það er að kaupa heillangan veg til þess að komast í bílinn sinn? Þetta er svo mikið bull, það er verið að útrýma verslun hérna, það er ekkert annað.“

Ferðamenn koma ekki í stað íslenskra viðskiptavina sem hætti að koma

Samt sem áður segir Sverrir að langstærsti hluti sinna viðskiptavina vera Íslendinga og ferðamenn geti ekki komið í staðinn fyrir þá. „Þetta eru 99% Íslendingar, og svo slæðast inn einstaka útlendingar,“ segir Sverrir.

„Það er þá einna helst ef farangur hefur tapast og þá vanti nærföt, buxur eða skyrtur eða eitthvað svoleiðis. Ferðamenn eru ekki að koma til Íslands til þess að versla, nema þá kannski helst útivistarmerkjavöru eins og 66 gráður norður, því þær eru alla jafna ódýrari heima hjá þeim.“

„Landinn“ er að fara út af stefnu borgarinnar

Sverrir óttast að með áframhaldandi fækkun verslana verði ekki nauðsynlegt jafnvægi á milli verslana, kaffihúsa og annarrar afþreyingar sem dragi fólk í miðbæinn.

„Ég er stundum að fá inn fólk sem kemur sérstaklega til mín af því það þarf vörur sem ég er með. Það segir oft að það hafi ekki komið niður á Laugaveg í tvö til þrjú ár, því það hafi ekkert hingað að sækja. Það er það sem er að gerast, Landinn er að fara út af þessari stefnu,“ segir Sverrir sem nefnir Múlahverfið sem mögulegan stað fyrir sig að fara á.

„Mig langar ekki í Kringluna eða Smáralindina, því ég vil vera sjálfs míns herra og ekki þurfa að hanga til 9 á fimmtudagskvöldum og hafa opið alla sunnudaga. Bernhard Laxdal lokaði í fyrra hér á Laugaveginum og flutti upp í Skipholt en þeir hafa verið hingað til hérna á Laugaveginum alla tíð. Þeir segja mér að þarna sé nóg af stæðum, gott aðgengi og allt annað líf.“

Segir meirihlutann ljúga um að samráð sé haft við verslanaeigendur

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í fyrri hluta aprílmánaðar er síðasta ákvörðun meirihlutans í borginni, sem þá innihélt Bjarta framtíð í stað Viðreisnar, með Laugaveginn að fækka bílastæðum um 11 einmitt á þeim slóðum sem verslun Sverris er.

„Það er nú enn eitt bullið sem er ekkert nema kostnaður, það virðist vera alveg sama hvar maður ber niður, þetta er svo arfavitlaus stefna að það hálfa væri nóg,“ segir Sverrir sem gefur lítið fyrir að borgin segist vera í reglulegu samráðsferli við þá aðila sem ákvarðanir þeirra snerta.

„Ég get alveg sagt þér það að ég hef aldrei verið spurður hvort ég sé með eða á móti þessum lokunum, aldrei. Þeir þykjast alltaf vera að láta kanna þetta en það er bara hreint út sagt lygi, þeir eru ekkert að gera það.“ Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðismann í borginni hefur einnig lýst yfir áhyggjum af fækkun íbúa og verslana í miðborginni og af aukinni einsleitni reksturs á svæðinu.