Forsvarsmenn National Front í Frakklandi hafa gert atlögu að Emmanuel Macron, frambjóðanda í forsetakosningunum og hafa sagt hann „frambjóðanda ólígarka“ sem samsvarar sig helst með frönsku elítunni og viðskiptajöfrum. Bloomberg fjallar um málið.

Macron mun etja kappi við Marine Le Pen í annarri umferð frönsku forsetakosninganna eftir tæpar tvær vikur, en hann sigraði fyrstu umferðina og hlaut 23,8 prósent atkvæða, en Le Pen 21,5 prósent. Emmanuel Macron starfaði áður hjá fjárfestingabanka og var fjármálaráðherra Frakklands.

„Við erum fullkomlega ósammála í nánast öllum stefnumálum,“ sagði Florian Philippot, varaformaður National Front. Philippot sagði enn fremur að Macron væri hrokafullur og sjálfumglaður. Hann bætti við að það hafi nánast verið eins og banka- og fjölmiðlaelítan hafi verið búin að ákvarða niðurstöðurnar fyrir fram, miðað við hvernig Macron talaði.