Edgar Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands og forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, hefur svarað bréfi ríkisstjórnarinnar sem komið var til Evrópusambandsins fyrir um mánuði síðan um afturköllun umsóknar Íslands að sambandinu. Í bréfi Rinkevics, sem aðgengilegt er á vefsíðu Evrópusambandsins , kemur fram að tekið verði mið af afstöðu Íslands hvað þetta varðar.

„Ég tel að Evrópusambandið sé að bregðast hárrétt við bréfi okkar. Eins og fram kemur í svarbréfinu þá taka þeir mið af stefnu ríkisstjórnarinnar, það er alveg skýrt, og ætli sér að fara í gegnum sína ferla. Það þýðir ekkert annað að mínu mati en að þeir ætli að bregðast við óskum okkar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið .

Segist Gunnar Bragi telja að þetta sé staðfesting á því að Ísland sé ekki lengur talið vera umsóknarríki og smám saman munum við hverfa af listum yfir umsóknarríki. Fylgst verði náið með því að það gangi eftir. „Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en svo að málinu sé lokið af hálfu Evrópusambandsins líkt og raunin er af okkar hálfu,“ segir Gunnar Bragi.