Erfitt er að ímynda sér að Vladimír Pútin, forseti Rússlands, láti af völdum með friðsamlegum hætti, að mati Mikhail Khodorkovsky, fyrrverandi milljarðamærings sem varði áratug í fangelsi í Rússlandi. Khodorkovsky var eitt sinn efnaðasti maður Rússlands og voru eignir hans metnar á 15 milljarða dala.

Hann var dæmdur sekur um skattsvik, peningaþvætti og önnur efnahagsbrot árið 2005. Hann hefur ætíð haldið fram sakleysi sínu og sagt dóminn vera hefnd fyrir að hafa fjármagnað stjórnmálaflokka sem voru andnsnúnir Pútin. Rússnesk stjórnvöld hafna þessu. Olíufélag Khodorkovsky, Yukos, var leyst upp og eignir þess voru að stærstum hluta seldar ríkisfyrirtækinu Rosneft.

Khodorkovsky segir Pútin hafa misst tækifærið til að láta af völdum með friðsamlegum hætti, en það hafi runnið honum úr greipum þegar hann tók á ný við forsetaembættinu árið 2012.

Stutt er síðan annar rússneskur milljarðamæringur, Vladimír Evtushenkov, var handtekinn og samkvæmt heimildum Bloomberg eru öfl innan rússneska stjórnkerfisins sem vilja að olíufélag hans, Bashneft, fái sömu meðferð og Yukos. Deilt sé hins vegar um það í innsta hring rússneskra stjórnmála og eru menn í kringum Dmitry Medvedev, forsætisráðherra, sem eru mótfallnir slíkri ríkisvæðingu.