Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina beita „sjokk“ aðferðarfræði í þeim tilgangi að hækka skatta og álögur hér á landi.

Þetta segir Bjarni á Facebook síðu sinni í kjölfar frétta um að til standi að hækka skatta á gistirými hér á landi. Fréttastofa RÚV greindi frá því í hádeginu í gær að í fjárlögum næsta árs væri gert ráð fyrir því að færa virðisaukaskatt á gistinætur úr neðra þrepi (7%) í það efra (25,5%). Rétt er að rifja upp að ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt á 100 kr. skatt, sem kallaður er gistináttagjald, þar sem hótel, gistiheimili, rekstararaðila tjaldstæða og fleiri þurfa að greiða 100 kr. af hverju seldu gistirými til ríkisins.

Bjarni segir á Facebook síðu sinni að „sjokk“ aðferðarfræði ríkisstjórnarinnar felist í eftirfarandi:

„1. Skelfilegar fréttir af skattahækkunum látnar leka út; 2. Hagsmunaaðilar heimta fund og leggja öll gögn á borðið; 3. Dregið er úr ítrustu hugmyndum en alögur stórauknar; 4. Talað um gott samráð, samstarf og skilning á tekjuvanda ríkisins.“

Þá segir Bjarni að þessari aðferð sé beitt af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ár eftir ár.