Samanburður á virðisauka í raforkusölu á Íslandi annars vegar og í Noregi hins vegar er afar villandi og beinlínis rangur. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson í svari sem birt er á Spyr.is . Í skýrslu McKinsey um hagvaxtarmöguleika Íslands, sem kom út á dögunum, er komist að þeirri niðurstöðu að virðisauki á hvern starfsmann hér á landi sé um helmingur þess sem gerist í Noregi. Virðisauki á teravattsstund (TWh) sé um 44% af virðisauka Norðmanna.

„Þessi samanburður er hins vegar afar villandi og beinlínis rangur. McKinsey notast í samanburði sínum aðeins við eitt ár, árið 2010. Svo stutt viðmiðunartímabil er engan vegin nægjanlegt ef draga á einhverjar marktækar ályktanir af niðurstöðum samanburðarins,“ segir Þorsteinn.

„Ennfremur voru aðstæður í Noregi þetta ár mjög óvenjulegar hvað raforkuverð varðar. Árið 2010 var raforkuverð í Noregi nefnilega í sögulegu hámarki vegna vatnsskorts þar í landi. Þetta leiddi til þess að meðalverð raforku hækkaði um 40% frá 2009 til 2010. Þessi þróun hefur síðan gengið til baka og gott betur, meðalverð það sem af er þessu ári er meðalverð um 43% lægra en 2010,“ segir hann. Munurinn á milli Íslands og Noregs í meðalári sé því langt frá því að vera svo mikill sem McKinsey leiði fram í skýrslunni.