Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor og stjórnarmaður í Seðlabanka Íslands, segir í grein í Frjálsri verslun að því miður hafi komið í ljós að framkvæmd gjaldeyrishaftanna sé engu skynsamlegri en höftin sjálf.

Ragnar Árnason
Ragnar Árnason
© BIG (VB MYND/BIG)

Ummæli Ragnars eru tengd húsleita Seðlabankans á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík og hjá fyrirtæki sem vann fyrir Samherja í mars. Seðlabankinn var með umfangsmikla heimild héraðsdóms til húsleitarinnar og handlagði gögn sem talin voru sýna fram á brot á gjaldeyrislögum. Samherjamenn sögðu í gær málið byggð á röngum verðútreikningum. Stjórnendur fyrirtækisins birtu í gær alla útreikninga með það fyrir augum að útskýra í hverju skekkjan felst.

Ragnar skrifar svo í Frjálsri verslun:

„Svokallað gjaldeyriseftirlit er starfandi innan Seðlabanka Íslands. Þar vinna menn hörðum höndum að því að finna og stoppa í glufur á reglunum og grípa þá sem taldir eru hafa brotið gegn bókstaf þeirra. Þetta gjaldeyriseftirlit hefur talið sig finna nokkurn fjölda alvarlegra brota og vísað til efnahagsbrotadeildar og sérstaks saksóknara. Þar hefur þorri málanna hins vegar verið léttvægur fundinn og felldur niður. Á meira en þriggja ára starfstíma gjaldeyriseftirlitsins hefur [ekki] verið sakfellt í einu einasta máli. Í stað þess að láta sér að kenningu verða og færa starfsemi sína að lögum og rétti í landinu hefur gjaldeyriseftirlitið bara hert róðurinn. Nú er gripið, að því er virðist algerlega að óþörfu, til innrása í fyrirtæki og greipar látnar sópa um skjöl og bókhaldsgögn. Kostnaður samfélagsins af þessum aðförum er mjög verulegur,“ skrifar Ragnar í Frjálsa verslun.

Hér má skoða útreikninga Samherja

Nánar má lesa um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar er vitnað til gagnrýni Ásmundar Helgasonar, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, á þá aðferð Seðlabankans sem notuð var til að rökstyðja húsleit og haldlagningu gagna hjá Samherja. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.