*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 10:47

Segir skýrsluna áfellisdóm yfir efnahagsstefnunni

Ragnar Árnason prófessor er harðorður í garð fráfarandi ríkisstjórnar í nýrri grein.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Skýrsla seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, um erlenda skuldastöðu þjóðarinnar er skýr áfellisdómur yfir efnahagsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar að mati Ragnars Árnasonar hagfræðiprófessors. Í grein í Morgunblaðinu í dag vitnar Ragnar í formála seðlabankastjóra að skýrslu bankans um fjármálastöðugleika, en þar er að finna fyrstu úttekt á skuldastöðu þjóðarinnar frá bankanum eftir þingkosningar.

Ragnar segir að í formálanum kveði við nokkuð annan tón en á undanförnum árum. „Þar er sagt berum orðum að samningsbundin skuldstaða þjóðarinnar sé að öðru óbreyttu ekki sjálfbær. Með samningsbundinni skuldstöðu er átt við undirritaða skuldasamninga í erlendri mynt. Nánar tiltekið er þessi skuldstaða talin ósjálfbær í þeim skilningi að núverandi og fyrirsjáanlegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar dugi ekki til að greiða vexti og afborganir af þessum skuldum.“

Mikið vantar upp á

Ragnar segir að það sem vanti upp á séu engir smámunir. „Í téðum formála skýrir seðlabankastjóri frá því að undirliggjandi viðskiptaafgangur, þ.e. það sem til ráðstöfunar sé til að greiða afborganir af erlendum lánum, nemi einungis um 3% af landsframleiðslu og fari minnkandi, en það sem þurfi til að standa í skilum nemi að meðaltali 5,5% af landsframleiðslu á næstu árum. Hið óbrúaða bil er að því áliti seðlabankastjóra u.þ.b. 2,5-3% af landsframleiðslu árlega á næstu fjórum árum eða nálægt 200 ma. króna miðað við núverandi verðlag.“

Seðlabankastjóri nefnir þrjár leiðir til að mæta vandanum. Fyrsta leiðin er aukinn útflutningur og þjóðhagslegur sparnaður með eða án gengislækkun krónunnar og önnur leiðin er nýjar erlendar lántökur til að fjármagna endurgreiðslur eldri lána. „Fyrri leiðin felur í sér lækkun á neyslu heimila a.m.k. tímabundið upp á u.þ.b. 5-7% árlega næstu árin og aukna verðbólgu ef nauðsynlegt verður að lækka gengið til að auka útflutning og þjóðahagslegan sparnað. Bætist þessi kjaraskerðing þá við lækkun kaupmáttar heimilanna sem átt hefur sér stað á undanförnum fjórum árum upp á hátt í 20%. Síðari leiðin frestar því að taka á vandanum en skerðir samt kjörin til lengri tíma með hærri vaxtagreiðslum til útlanda en ella væri,“ segir Ragnar.

Vandanum ýtt áfram

Þriðja leiðin sem seðlabankastjóri nefnir snýr að þroatabúum bankanna og kvikri krónueign erlendra aðila. Ragnar segir að á mæltu máli sé seðlabankastjóri að segja að kröfuhafar geti ekki fengið kröfur sínar greiddar í erlendum gjaldeyri nema gegn verulegri lækkun þessara krafna, t.a.m. með yfirfærslu í erlenda mynt á óhagstæðara gengi en nú gildir.

„Þetta er auðvitað skýr áfellisdómur yfir efnahagsstefnu fráfarandi ríkisstjórnar. Í stað þess að takast á við vandann hefur hún ýtt honum á undan sér. Fjórum og hálfu ári eftir hrun er skuldavandi þjóðarbúsins kominn í svo mikið óefni að seðlabankastjóri telur hann óviðráðanlegan nema gripið verði til nýrra úrræða. Þau úrræði fela óhjákvæmilega í sér nýja kjaraskerðingu nema vænlegra sé talið freista þess að fresta vandanum en á ný með frekari erlendum lántökum,“ segir Ragnar að lokum.