Margt bendir til að þess að komast hefði mátt hjá falli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) á vordögum 2009 þegar Fjármálaráðuneytið tók yfir rekstur hans. Í stað þess að koma honum til hjálpar beitti ríkisvaldið handaflsaðgerð til að knésetja sparisjóðinn, að því er fram kemur í nýrri bók sem um sögu Spron.

Bókin heitir Hugsjónir, fjármál og pólitík og er hún eftir sagnfræðinginn Árna H. Kristjánsson. Í bókinni er stuðst við fjölda heimilda, svo sem fundargerðir stjórnar Spron auk minnispunkta og annarra heimilda sparisjóðsstjóranna Baldvins Tryggvasonar og Guðmundar Haukssonar auk Jóns G. Tómassonar, fyrrverandi borgarlögmanns og formanns stjórnar Spron um árabil.

Fallið ekki óhjákvæmileg

Í bókinni er falli sparisjóðsins lýst í ítarlegu máli og fjallað um fjölmörg bréfaskipti sem fóru á milli stjórnenda Spron, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og ráðamanna áður en gripið var inn í rekstur sparisjóðsins. Í bókinni er fullyrt að stjórnvöld hafi réttlætt yfirtökuna með því að halda því fram að hún hafi verið óhjákvæmileg.

Máli sínu til stuðnings hafi ráðamenn ekki vílað fyrir sér að færa í stílinn og farið með rangt mál í tengslum við málefni sparisjóðsins. Sem dæmi hafi Gylfi Magnússon, þá viðskiptaráðherra, sagt yfirtöku hafa verið óumflýjanlega enda tíminn til að finna lausnir á vanda sjóðsins runnið út og hefðu kröfuhafar Spron þurft að slá mjög af kröfum sínum til að tryggja tilvist sjóðsins. Í bókinni segir þvert á móti og því lýst að í fyrsta lagi hafi tíminn ekki runnið út heldur hafi pólitísk ákvörðun ráðið mestu um að ákveðið hafi verið að afturkalla frest sem stjórnendur og hluthafar sparisjóðsins höfðu til að koma málum hans í lag.