Stjórnvöld sviku gerða samninga og gengu á bak orða sinna með því að framlengja raforkuskattinn, sem er 1.700 milljónir króna á hverju ári. Þetta fullyrðir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, hagsmunasamtaka álfyrirtækja. Hann er gagnrýninn á háttsemi stjórnvalda.

„Í þeim samningum, sem gerðir voru 2009, greiddu álverin fyrirfram tekjuskatt upp á rúman milljarð á ári til að styðja við ríkissjóð á erfiðum tímum. Ég minni á að fjármálaráðherra skrifaði bréf til forstjóra Rio Tinto Alcan þar sem hann ítrekaði að staðið yrði við gerða samninga árið 2010. Það var ein forsenda þess að ráðist var í fjárfestingarverkefnið í Straumsvík. Það er auðvitað fáheyrt að stjórnvöld framlengi síðan þennan orkuskatt þvert ofan í gefin loforð,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Pétur bendir á að undanfarið hafi miklar hagræðingaraðgerðir staðið yfir í Straumsvík með uppsögnum starfsfólks út af taprekstri sem rekja megi að hluta til þessarar fjárfestingar. Í því ljósi er undarlegt að koma í bakið á greininni með þessum hætti. Það sé alvarlegt mál og bætist ofan á önnur gjöld sem lögð eru á iðnaðinn, t.d. hækkun á flutningsgjaldi raforku og losunarheimildirnar á næsta ári en þær renna að stærstum hluta í ríkissjóð.

„Þetta nagar allt í arðsemi þessara fyrirtækja og grefur undan trúverðugleika íslenskra stjórnvalda,“ segir Pétur. „Ég bind vonir við að ný ríkisstjórn muni nálgast þessi mál með öðrum hætti og hafi annað viðhorf til iðnaðarins en fyrri ríkisstjórn. Því hefur verið lýst yfir að samningurinn verði ekki framlengdur fram yfir árið 2015, en áliðnaðurinn hlýtur að gera þá kröfu að hann verði afnuminn fyrr. Hvað varðar álver í Helguvík hefur Norðurál lýst því yfir að fullur vilji sé til að fara í það verkefni og hefur þegar sett yfir 15 milljarða í undirbúning þess. Það blasir við að viljinn er til staðar, en það þarf auðvitað að klára samninga um það og þar spilar allt inn í, m.a. álögur stjórnvalda. Það er ekki hlutverk Samáls að hafa skoðun á rammaáætlun stjórnvalda, heldur er það lýðræðislega kjörinna stjórnvalda og þjóðarinnar að ákveða hvar á að virkja og hvaða orku á að setja á markað. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir og leitað er eftir kaupendum á þeirri orku þá eru álframleiðendur í hópi mögulegra kaupenda á henni,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal við Pétur má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .