Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur hækkað um allt að hálft prósentustig síðan í byrjun vikunnar eftir að Seðlabankinn setti nýjar reglur um bindiskyldu á fjármagnsinnflæði á laugardag. Reglurnar virðast að einhverju leyti hafa komið markaðnum í opna skjöldu þó Seðlabankinn hafi lengi boðað bindiskyldu á erlent fjármagn.

Samkvæmt nýju reglunum verða þeir sem koma með erlent fjármagn til landsins að leggja 40% fjárfestingarinnar inn á sérstaka tegund af bankareikningum. Bönkum ber skylda til að ráðstafa þeirri fjárhæð á vaxtalausan reikning hjá Seðlabankanum og er upphæðin bundin í eitt ár.

Hraði innflæðis hafi minnkað

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá GAMMA, segir að tímasetning og umfang aðgerðanna hafi komið á óvart í ljósi umfjöllunar í síðasta riti Fjármálastöðugleika, þar sem þess hafi verið getið að innflæði væri ekki komið á það stig að bregðast þyrfti við. Hann segir að hraði innflæðis á þessu ári hafi verið að minnka samanborið við síðasta ár.

Kaup erlendra aðila fyrstu 5 mánuði ársins hafi verið um 4 milljarðar á mánuði en nálægt 10 milljörðum á mánuði seinni helming ársins 2015. Erlendir aðilar eigi nú aðeins um 9% af heildarútgáfu ríkissjóðs þegar eign aflandskrónueigenda hefur verið dregin frá. Það sé umtalsvert lægra en í flestum öðrum ríkjum.

Agnar segir að það sé mat markaðsaðila að útfærsla innflæðishaftanna sé með þeim hætti að ekki muni aðeins hægja á fjárfestingum erlendra aðila í innlend skuldabréf, heldur muni þær að mestu stöðvast. Hann segir að nær hefði verið að skerða einungis vaxtamuninn, til dæmis með því að beina hluta fjárfestingarinnar í óbundin en vaxtalaus innistæðubréf, ef markmiðið hefði einungis verið að hægja á innflæðinu en ekki stöðva það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .